Brjóskfiskar

Brjóskfiskar eru flokkur fiska sem hafa stoðgrind eða „beinagrind“ úr brjóski en ekki beinum eins og beinfiskar. Skötur og háffiskar, s.s. hákarlar, eru brjóskfiskar. Brjóskfiskar eru gamall flokkur dýra sem lítið hafa þróast í gegnum aldirnar. Miðaða við brjósk eru bein fremur stíf og einnig þyngri. Bornir saman við beinfiska eru brjóskfiskar því léttari og sveigjanlegri, þó þeir séu ekki eins sterkbyggðir. Brjóskfiskar eru algengari í hlýrri sjó en finnast þó um öll heimsins höf. Núlifandi tegundir brjóskfiska skiptast í háketti og þvermunna. Við Ísland er færri en 50 tegundir brjóskfiska. Mest eru það háfar og skötur.

Skatan er flatur brjóskfiskur, hún er stærst skötutegunda í norðurhluta Atlantshafsins og verður mest rúmir 2,5 metrar. Skötuna er að finna allt í kringum Ísland en er þó algengari í hlýrri sjónum sunnan og vestan við landið. Eins og útlitið gefur til kynna lifa skötur á sjávarbotninum og gera það allt frá 10 m dýpi niður í 1000 m. Sköturnar gjóta hylkjum með frjóvguðum eggjum sem kölluð eru pétursskip. Eiga þær þetta sameiginlegt með fleiri skötutegundum og sumum háfategundum.

Á Íslandi er hefð fyrir því að skötur séu borðaðar á Þorláksmessu. Vegna efna sem eru í skötunni þarf ekki að hafa mikið fyrir því að verka hana áður en hún borðuð. Með því að láta hana standa í nokkrar vikur eða mánuði fer af stað hægfara efnaskiptaferli og kæsist skatan án þess að bæta þurfi nokkru efni við. Ammoníak verður til við kæsingu og gefur það frá sér hina alræmdu lykt af kæstri skötu.

Háffiskar eru hópur brjóskfiska en undir hópinn falla m.a. hákarlar. Við Ísland eru um 20 tegundir háfa. Beinhákarlinn er langstærsta fisktegundin við Ísland, næststærst í heiminum öllum, og verður 12-15 m á lengd og 3-4 tonn að þyngd. Einungis hvalháfurinn, sem heldur sig í hlýrri sjó en við Ísland, er stærri fiskur en beinhákarlinn. Háfar við Ísland er sjaldgæfir í kaldari sjónum fyrir norðan landið, einungis hákarlinn finnst reglulega þar. Hámerin er sá hákarl við Ísland sem er líkastur staðalímynd hákarls, grár, straumlínulagaður, langur og með ógnvekjandi tanngarð. Hámerin verður 2-3 metrar og í kringum 150 kíló. Rétt er að taka fram að ekki er vitað til þess að háfur eða hákarl hafi ráðist á mann við Ísland. Á 19. öldinni voru hákarlaveiðar þær veiðar sem gáfu mest af sér við Ísland. Olía unnin úr lifrinni var verðmæt og notuð í að lýsa upp borgir í Evrópu.