Hrognkelsi

Hrognkelsi er uppsjávarfiskur sem heldur sig að mestu fjarri landi á úthafinu. Hrognkelsi eru hnöttóttir, búlduleitir fiskar og eru þau svipsterk, jafnvel ljót. Hængur hrognkelsis nefnist rauðmagi og hrygnan grásleppa. Bæði kyn fisksins eru veidd sem nytjafiskar en af ólíkum ástæðum. Grásleppan hefur aðallega verið veidd vegna hrognanna sem eru söltuð og flutt út sem verðmætur kavíar. Rauðmaginn sem er veiddur er nær allur seldur innanlands sem matfiskur.

Hrognkelsi

Hrygningarferli hrognkelsa er áhugavert. Rauðmaginn kemur á undan grásleppunni á hrygningarsvæði hrognkelsa. Til að undirbúa hrygningu grefur rauðmaginn hreiður í sjávarbotninum á grunnsævi nærri landi sem grásleppan hrygnir í og yfirgefur að því loknu. Hængurinn heldur sig við hreiðrið og gætir þess þar til hrognin hafa þroskast nóg. Þar sem hrognkelsi eru svo sérstök í laginu og alls ekki straumlínulöguð krefst það talsverðrar orku að halda sig kyrrum í straumum hafsins. Þróunin hefur þó séð til þess að þau eigi auðveldar með það þar sem undir belgi fisksins eru sogskálar sem festa hrognkelsi við sjávarbotninn.