Kolmunni

Kolmunni er þorskfiskur sem sker sig úr ættinni vegna þess að hann er uppsjávarfiskur og mikill torfufiskur. Kolmunninn er langur og grannur og er neðri hluti fisksins silfraður. Að innan er munnur kolmunnans svartur og þaðan kemur nafn hans. Miðað við þorskættina er hann smár, yfirleitt undir 30 cm, en hann verður allt að hálfum metra. Í fæðuleit flakkar kolmunninn mikið um norðaustanvert Atlantshafið eða allt frá norður af Rússlandi að Grænlandi og alveg niður að Marokkó nyrst í Afríku. Kolmunnastofninn getur orðið mjög stór og er hann á meðal tíu mest veiddu fisktegunda í heiminum. Enn er langmest, eða meira en 95%, af kolmunnanum sem er veiddur við Ísland bræddur í fiskimjöl og lýsi þó að frysting til manneldis aukist.

kolmunni