Loðna

Loðnan er einn mikilvægasti fiskur í sjónum við Ísland. Loðnan er talin svo mikilvæg að hún fær að prýða 10 krónu peninginn. Ekki einungis er hún verðmætur afli úr sjónum heldur einnig er hún mikilvæg fæða fyrir fjölda annarra fiska. Loðnan nærist á svifi og aðrir fiskar síðan á loðnunni, t.a.m. er loðna helsta fæða þorsksins. Loðnan tengir því saman stærri fiska við svif sem er undirstaða lífríkis í sjónum.

loðna

Teikning: Jón Baldur Hlíðberg

Loðnur eru smáir kaldsjávarfiskar sem lifa nærri yfirborði sjávar, oft í torfum. Mikill hluti loðnunnar við Ísland heldur sig mestan part ævi sinnar í kaldari sjónum fyrir norðan landið. Þegar kemur að hrygningu færir hún sig í hlýrri sjó suður af landinu. Í fæðuleit á sumrin færa loðnur sig mikið milli svæða. Þær ganga langt norður af landinu til þess en snúa til baka á haustin.

LoðnaTeikning: Jón Baldur Hlíðberg