Makríll

Síðustu ár hefur sjórinn við Ísland hlýnað. Lífsskilyrði plantna og dýra í sjónum breytast við það. Með hlýnun sjávarins koma „landnemar“ í sjóinn við Ísland sem áður hentaði ekki fyrir þá. Makríllinn er augljósasta dæmið um fisk sem færst hefur inná miðin undanfarin ár. Svo algengur er hann orðinn á miðum Íslands að árið 2014 var heildarverðmæti makríls miðað við aðrar útfluttar tegundir mest sjávarafurða að þorskinum frátöldum. Fyrir ekki svo mörgum árum voru engir makrílar veiddir við Ísland og því mikill fengur af komu hans á miðin. Spurning er þó hvort hann éti of mikið af æti annarra fiska og seiðum þeirra til að hægt sé að fagna honum til lengri tíma.

Makríll

Teikning: Jón Baldur Hlíðberg

Makríllinn er frægur fyrir það að ferðast um í stórum torfum á sumrin í leit að æti í grynnri sjó oft nærri landi. Um allan heim finnst makríllinn eða nánir hans og eru þeir mikilvægir nytjafiskar. Makríllinn er spengilegur og grannvaxinn fiskur sem syndir mjög hratt. Fullorðnir makrílar eru tæpir hálfur metri á lengd og geta orðið aðeins lengri. Borinn saman við aðra uppsjávarfiska eru makrílar verðmætir. Makrílar eru meira notaðir sem matfiskur en margar aðrar tegundir uppsjávarfiska sem fara mikið í olíu- og mjölgerð sem eru minna verðmætar afurðir en fiskur sem matur.