Þorskar

Þorskar eru langmikilvægasti fiskurinn í fiskveiðum Íslands og einnig í allri sögu sjávarútvegs. Síldin var nánast jafn mikilvæg og þorskurinn um tíma á síðustu öld og hákarl var það líka um stuttan tíma á 19. öldinni. Annars hefur þorskurinn alltaf verið langmikilvægasti nytjafiskur Íslendinga. Í gegnum aldirnar hafa útlendingar leitað á miðin við Ísland og hefur það aðallega verið vegna þorsksins. Þegar Íslendingar færðu út landhelgina í kringum Ísland og urðu milliríkjadeilur sem kallaðar eru þorskastríðin vegna stöðu þorsksins.

Þorskur

Teikning: Jón Baldur Hlíðberg

Þorskar finnast allt í kringum Ísland og eru þeir einn algengasti fiskur Norður Atlantshafsins. Þorskar sem halda sig við Ísland eru taldir sjálfstæður stofn sem leitar ekki annað. Einkennandi við útlit þorska er skeggþráður á höku þeirra sem er skynfæri notað í fæðuleit. Þeir hafa stóran kjaft og stórt höfuð. Sverastir eru þeir rétt fyrir framan miðjan kviðinn. Flestir þorskar eru gulgráir eða gulgrænir á bakinu með ljósum kvið sem er nánast hvítur og eru hliðar þaktar litlum dökkum blettum. Þrátt fyrir fremur stór höfuð og  kjaft eru þeir nokkuð straumlínulagaðir og rennilegir. Þorskar vaxa og  þroskast mishratt eftir hitastigi sjávar. Þorskar í kaldari sjó fyrir norðan land vaxa hægar og verða kynþroska um 7 ára, en þeir fyrir sunnan land þar sem er hlýrri sjór eru kynþroska um 5 ára. Þorskar verða mest um 20 ára gamlir og svo gamlir þorskar hafa mælst hátt í tveggja metra langir og um 100 kíló. Allt frá grunnsævi niður í 600 metra dýpi finnst þorskur við Ísland. Misjafnt er eftir stærð og aldri hvað þorskar nærast á. Þorskaseiði lifa á svifi, smáir þorskar éta mest rækjur og smáa fiska en eftir því sem þorskar eru stærri eykst hluti fiska í fæðu þeirra. Helsta fæða þroskaðra þorska er loðna og aðrir smáfiskar. Stærð bráðar þorska er þannig alltaf í beinu hlutfalli við þeirra eigin stærð.