Ýsa

Ýsan er algengur þorskfiskur sem heldur sig við mjúkan sjávarbotn allt í kringum Ísland á dýpi frá 10 til 200 metrum. Ýsan er bolfiskur með hvítt hold og er botndýraæta sem lifir mest á skeldýrum og ormum en fær sér líka loðnu og sandsíli. Ýsur hafa mikið verið veiddar í gegnum tíðina, á meðan útlendingar veiddu enn við Ísland var ýsuafli þeirra álíka mikill og sá sem Íslendingar veiddu.  Um 100 þúsund tonn voru þá veidd í kringum 1960 en dró úr eftir að lokað var á veiðar útlendingar. Vanalega er ýsuaflinn um 50 þúsund tonn á ári en ýsustofninn var sterkur í upphafi aldarinnar og voru þá aftur veidd um 100 þúsund tonn. Síðan hefur aftur dregið úr veiðunum niður í kringum meðaltalið. Athyglisvert er að ýsan hefur verið vinsælli á borðum Íslendinga en þorskurinn. Þorskurinn þykir fínni matur annars staðar og er hann mun verðmætari vegna þess. Líklega er það einmitt skýringin á því af hverju ýsan er vinsæl hér. Þorskurinn var verðmætari útflutningsvara sem hentaði betur til þurrkunar og söltunar og hefur því aukið geymsluþol. Íslendingar hafa eflaust tamið sér að neyta ódýrari vörunnar og selja þá sem gaf af sér mestu tekjurnar. 

ýsa