Sjávarútvegur

Sjávarútvegur er ein elsta og stærsta atvinnugrein landsins. Í hafinu kringum Ísland eru margar ólíkar tegundir fiska og annarra sjávardýra sem margar hverjar eru dýrmæt söluvara. Íslendingar hafa sótt sjóinn allt frá landnámi en á 20. öldinni varð sjávarútvegurinn svo risavaxinn iðnaður á Íslandi. Núna eru meira en milljón tonn sjávarafurða veidd í hafinu kringum Ísland á hverju ári. Það samsvarar rúmlega þremur tonnum af fiski fyrir hvern Íslending. Við borðum hins vegar ekki þrjú tonn af fiski á ári hvert heldur er 99% alls þess sem er veitt flutt erlendis og selt þar.

Löndun

Í dag er íslenskur sjávarútvegur mjög fjölbreyttur iðnaður. Til að veiða fiskinn, verka hann og flytja á markaði erlendis þarf aðkomu fjölmargra ólíkra fyrirtækja. Sjávarútvegur er orðinn hátækniiðnaður á Íslandi og hér á landi eru mörg hundruð fyrirtæki sem þróa tæknibúnað og þjónusta sjávarútveginn. 

Á Íslandi vinna um 9.000 manns við að veiða og verka fisk og um 10-12.000 manns til viðbótar hafa atvinnu af því að þróa og smíða tæknibúnað fyrir skip og fiskvinnslur, markaðssetja, selja og flytja afurðir á markaði erlendis, þjónusta fiskveiðiflotann, þróa nýjar afurðir, rannsaka hafið og fiskistofnana kringum Ísland og ýmislegt fleira sem tengist sjávarútveginum.