Íslenskur sjávarútvegur

Þorskur, loðna, síld, makríll, karfi, ýsa og ufsi eru mikilvægustu nytjategundirnar við Ísland. Af þessum tegundum veiðum við mest og fáum mestar tekjur fyrir. Nokkur hundruð bátar stunda fiskveiðar á Íslandi. Allt frá gríðarstórum fiskiskipum sem sum geta borið um 3.000.000 kg af fiski, niður í smábáta sem veiða kannski 100-500 kg í einu. Öllum er frjálst að veiða fisk úr sjónum við Ísland til einkaneyslu en sé það gert í atvinnuskyni þarf til þess sérstakt leyfi, svokallaðan kvóta.

Kvóti er leyfi til að veiða ákveðið magn af ákveðinni fisktegund við Ísland á hverju ári. Á hverju ári ákveður sjávarútvegsráðherra hve mikið má veiða af hverri fiskitegund við Ísland það árið. Sjómennirnir verða að hlýða ákvörðun ráðherrans og mega ekki veiða meira en hann segir til um. Sjávarútvegsráðherrann fer jafnan eftir ráðleggingum vísindamanna um hvað mikið skuli veitt.  

Vísindamennirnir á Hafrannsóknarstofnun Íslands meta hve mikinn fisk er óhætt að veiða á hverju ári. Sé of mikið veitt er hætt við að fiskistofnarnir minnki eða deyi jafnvel út. Þetta fyrirkomulag, að stjórna hve mikið er veitt á hverju ári, er kallað fiskveiðistjórnun. Markmið góðrar fiskveiðistjórnunar er að vernda og viðhalda fiskistofnunum svo hægt sé að nýta þá áfram í framtíðinni. Margir fiskistofnar við Ísland voru ofveiddir á 20. öldinni og minnkuðu þá mikið. Nú er gengið betur um fiskistofnana og ofveiðin heyrir að mestu sögunni til.

Helga María