Sagan

Fiskveiðar hafa verið Íslendingum mjög mikilvægar í gegnum aldirnar. Hagkerfinu á Íslandi hefur gjarnan verið lýst sem landbúnaðarhagkerfi en fiskveiðar voru í raun alveg jafn mikilvægar, að minnsta kosti frá 14 öldinni.

arabat

Á 14 öldinni fer mikilvægi fiskveiða að aukast, en þær höfðu áður aðeins verið til heimabrúks. Á þessum tíma var þorskurinn helsta veidda tegundin með um 10.000 til 40.000 tonn af veiddum afla, en einnig var hákarl og aðrir botnfiskar veiddir. Vinnsluaðferðir á þessum tíma voru fyrst og fremst þurrkun en umhverfisskilyrðin á Íslandi sköpuðu góðar aðstæður til þurrkunar þar sem loftið er kalt og vindasamt. Þorskurinn sem er þurrkaður kallast skreið.  Aðrar aðferðir til nýtingar á fiskinum á þessum tíma voru lýsi, kæsing og súrsun en salt þótti of dýrt í framleiðslu. Aðalútflutningsafurð Íslendinga frá 14 öld til byrjun þeirrar 18 var því skreið sem þótti mjög mikil gæðaafurð.

 

skreid

 

soltun

Með iðnvæðingu í Evrópu á 19 öldinni varð salt ódýrara og þá byrjaði saltfiskurinn að taka við af skreiðinni á Íslandi en söltun er ævaforn geymsluaðferð matvæla. Fram að þessum tíma höfðu árabátar aðeins verið notaðir til að veiða á Íslandi en á 19 öldinni hófst skútuöldin í okkar sögu þó að erlendar skútur höfðu verið notaðar við Ísland frá 15 öld. Skútur gátu veitt lengra út, í lengri tíma í einu og í vondu veðri en hér tók sérstök stétt sjómanna að myndast. Þær voru þó dýrar í rekstri og góð fiskimið var að finna nálægt landi svo að margir notuðu enn árabáta.

Á 19 öldinni voru hákarlaveiðar mjög mikilvægar en hákarlalýsi var mjög verðmætt. Selaveiðar voru einnig stundaðar og síldveiðar hófust á seinni hluta aldarinnar. Þá fóru norskir síldveiðimenn að sækja til Íslands og kenndu Íslendingum tæknina til að veiða síldina. Hvalveiðar voru einnig miklar á 19 öldinni og voru mikilvægar fyrir íslenskan efnahag á þeim tíma, en margir stofnar voru ofveiddir og árið 1912 voru þær fyrst bannaðar.

hvalveidar

Á 20 öldinni fór Ísland að tæknivæðast og kallast sú öld vélskipaöldin. Fyrsti íslenski vélbáturinn kom til Ísafjarðar 1902 og fyrsti íslenski togarinn kom til Reykjavíkur 1905. Smátt og smátt varð nánast allur íslenski flotinn vélvæddur. Tæknivæðingin á Íslandi var mikil og er enn að þróast, oft með alíslenskri tækni.

Íslenskum skipum er skipt í tvær gerðir, vélskip og togara. Upphaflega voru þau mjög lítil, bara árabátar með vél í en um miðja öldina stækkuðu þau mjög mikið vegna síldveiðanna. Nútíma vélskip notar margar gerðir af veiðarfærum.

Við útfærslu landhelginnar fjölgaði togurum mikið og urðu yfir 100 talsins. Frystitogarar fóru einnig að koma til sögunnar. Ýmsir erlendir togaraflotar leituðu til Íslands fram á seinni hluta 20 aldarinnar en til að koma í veg fyrir það var landhelgin færð út í 4 mílur árið 1952, 12 mílur árið 1958, 50 mílur árið 1972 og loks 200 mílur árið 1975.

skuta

 

Þorskur er nær alltaf mikilvægasta tegund Íslendinga þó að fram úr honum hafi síldin farið einstaka sinnum í gegnum tíðina. Sveiflukennt er hvaða tegundir koma þar á eftir en það eru ýmist ýsa, karfi, rækja, loðna og grálúða en á undanförnum árum hefur makríllinn leitað á íslensk mið og orðið Íslendingum mikilvæg aflategund.

Í gegnum aldirnar hefur lýsi úr ýmsum sjávardýrum verið nýtt sem olía á lampa til að hafa ljós á heimilum. Hákarlalýsi var einnig mikilvæg útflutningsafurð en iðnaðarframleiðsla á lýsi hófst svo á 20 öld með tilkomu vélanna. Lýsi er í dag mikilvæg afurð en þó er hún ekki notuð til að lýsa með. Þorskalýsi hefur fylgt Íslendingum lengi sem mkilvæg uppspretta omega-3 fitusýra en einnig er lýsi unnið úr uppsjávarfiskum.

velskip

Söltun á fiski er enn stunduð en frysting hefst árið 1929 og er okkar helsta vinnsluaðferð í dag. Aðrar vinnsluaðferðið eru reyking, kæsing og niðursuða en á undanförnum árum hefur ferskfiskur mikið verið að aukast. Fiskurinn er þá kældur en fluttur ferskur út með flugi og er þessi aðferð hratt að verða mjög mikilvæg.

Það má þannig segja að saga íslenska sjávarútvegsins skiptist í þrjú megintímabil: árabátaöld, skútuöld og vélskipaöld. Með stórstígum tækniframförum í bæði veiðum og vinnslu er íslenskur sjávarútvegur nú öflugri en nokkru sinni fyrr. Við erum mjög framarlega í fiskveiðistjórnun með ýmsu eftirliti, útfærslu landhelginnar og kvótakerfinu. Við erum einnig mjög framarlega í fullnýtingu aflans, verðmætaaukningu og nýsköpun í sjávarútvegi.