Þorskastríð

Í kringum Ísland eru fengsæl fiskimið sem löðuðu að erlenda sjómenn að minnsta kosti frá því um 1400. Frá þeim tíma eru til sögur af skútum frá Englandi og síðar komu meðal annarra Frakkar og Þjóðverjar. Á þessum tíma nýttu Íslendingar lítið þessa auðlindin allt í kringum landið. Íslendingar veiddu bara á litlum árabátum sem fóru stutt frá landi en mun stærri erlend seglskip veiddu miklu markvissara. Bændurnir á Íslandi veltu þessu ekki mikið fyrir sér og gerðu ekkert mál úr veiðum útlendinganna.

Við aldamótin árið 1900 varð breyting á sjósókn Íslendinga. Íslendingar sóttu þá í sjóinn á stærri bátum en áður. Á sama tíma voru útlendingarnir líka komnir með stærri skip hingað en áður. Ágreiningur varð um hver ætti rétt á sjósókninni, útlendingar vegna sögu þeirra af veiðum við Ísland eða Íslendingar vegna þess að miðin eru við landið þeirra. Með tækniframförum urðu veiðar mun stórvirkari en áður og óttuðust Íslendingar að útlenskar botnvörpur, sem voru ný tækni, myndu skófla allan fisk upp af sjónum og skemma hrygningarstöðvar.  Þrátt fyrir áhyggjur á Íslandi var lítið hægt að gera þar sem Íslendingar voru ekki sjálfstæðir heldur hluti af Danmörku alveg til fullveldis 1. desember 1918.

Varðskip

Það hafsvæði sem hvert ríki hefur sérstök réttindi á varðandi nýtingu auðlinda kallast efnahags- eða fiskveiðilögsaga. Í skrefum frá 1901 til 1975 var lögsaga Íslands færð út og lokað á veiðar útlendinga á sama tíma. Þessum aðgerðum fylgdu deilur við þær þjóðir sem veitt höfðu við Ísland og þá sérstaklega við Englendinga. Hörðustu deilurnar eru nefndar þorskastíðin eftir helsta verðmæti sjávarins.

Íslensku miðin fengu frið fyrir veiðum útlendinga á meðan heimstyrjaldirnar stóðu yfir en eftir að friður komst á eftir seinni heimstyrjöldina fóru veiðar þeirra aftur af stað við Ísland. Vegna ofveiða í kjölfar ágangs útlendinga og framfara í veiðum hjá Íslendingum dróst afli saman. Ljóst var að grípa þurfti til ráðstafana til að ekki færi illa. Í skrefum var landhelgin og fiskveiðilögsaga Íslendinga færð út næstu áratugina. Við hverju skrefi brugðust Bretar illa við. Deilurnar undu uppá sig og hófst fyrsta þorskastríðið 1958. Alþingi hafði þá fært landhelgi Íslands utar og brugðust Bretar við með því að senda herskip í fylgd með fiskveiðiskipum sínum á veiðum við Ísland. Ekki var tekið vel í þessa framkomu af hálfu Íslands. Íslenska landhelgisgæslan mátti sín þó lítils gegn sjóher Breta í þessum deilum og algjörlega augljóst hver hefði yfirhöndina ef kæmi til átaka.

Helsta vopn Landhelgisgæslunnar í þorskastríðunum voru svokallaðar togvíraklippur. Klippurnar voru einföld íslensk uppfinning sem særðu hvorki né drápu neinn. Þær ollu þó miklum kostnaði fyrir Englendinga og vernduðu fiskmið Íslands. Togvíraklippur líta út eins og akkeri með fjórum krókum og í hverjum krók eru hárbeittir hnífar. Togvíraklippur voru dregnar aftan úr varðskipum landhelgisgæslunnar til að klippa veiðarfæri aftan af erlendum veiðiskipum. Togvíraklippurnar voru notaðar til að skera í sundur vírinn sem dró botnvörpu, netið á botnvörpunni var þá skorið frá bátnum og varð ómögulegt að veiða nokkuð þá.

Því má halda fram að nafnið á þorskastríðunum sé uppblásið vegna þess að stríðsátök voru sama sem engin. Alvarlegast var að hleypt var af fallbyssum, hvoru tveggja með púðurskotum og alvöru skotum, ásamt því að árekstrar skipa áttu sér stað þar sem viljandi var stímt á. Segja má að Ísland hafi náð sínu fram í þorskastríðunum. Eftir það síðasta um miðjan áttunda áratug síðustu aldar var fest í sessi 200 sjómílna landhelgi Íslands þegar samningar náðust við Breta. Nokkrar ástæður eru fyrir því að Íslendingar náðu sínu fram í deilunum. Dýrt var fyrir Breta að halda veiðum áfram undir vernd herskipa, þróun alþjóðalaga um hafið var sambærileg því sem farið var fram á af hálfu Íslands og mikilvæg staðsetning Íslands sem stöð fyrir Atlantshafsbandalagið var í hættu þar sem Íslendingar hefðu getað sagt sig frá bandalaginu.