Trillan siglir af stað!

Trillan er komin í loftið!

 

Íslenski sjávarklasinn hefur opnað nýjan spurningaleik og fræðsluvef sem tengist sjávarútvegi og lífríki sjávar.

 

Leikurinn hefur hlotið nafnið Trillan og er hannaður fyrir snjallsíma, spjaldtölvur og borðtölvur. Í Trillunni er reynt á þekkingu á sjávarútvegi og lífríki sjávar á skemmtilegan máta. Allir Íslendingar hafa gagn af þekkingu á þessu sviði og í spurningaleiknum Trillunni er stuðlað að því. Leikurinn og síðan eru miðuð að ungmennum en hvort tveggja getur þó verið fróðlegt fyrir alla aldurshópa.

 

Sjávarútvegurinn spannar mjög vítt svið og er ætlunin að kveikja áhuga ungmenna á ólíkum hliðum þessa rótgróna en fjölbreytta atvinnuvegs. Eitt af markmiðum Sjávarklasans er að vekja áhuga á sjávarútveginum og hlutverki hans í íslensku samfélagi og er þetta skemmtileg og lífleg nálgun fyrir unga sem aldna. Trillan hefur verið unnin í samstarfi við Rannsóknarsjóð Síldarútvegsins og Samtök sjávarútvegssveitarfélaga. 

 

Sjávarklasinn hefur síðastliðin ár staðið fyrir kynningum á efninu fyrir grunnskólanemendur sem hefur gefið góða raun. Vaknaði þá upp spurning hvernig mætti hvetja krakkana áfram í að kynna sér þessa grunnstoð íslensks samfélags. Leikurinn og síðan eru gerð með það í huga og er það von sjávarklasans að ungt fólk sjái fjölbreytileikann og tækifærin sem íslenskur sjávarútvegur hefur upp á að bjóða.

 

Þess má geta að leikurinn og vefurinn eru í þróun og vill Sjávarklasinn gjarnan fá fleiri í lið með sér til að koma að frekari þróun verkefnisins.